Vorverkin

Jæja þá er hið íslenska sumar hafið þ.e. sumardagurinn fyrsti liðinn og kominn maí. Rollurnar farnar að bera á fullu, fuglasöngur allstaðar og flærnar farnar að narta í mig (alveg ómissandi vorboði).

Það er merkilegt með allt sem er að gerst að það þarf alltaf að vera á sama tíma. Kringum sumardaginn fyrsta var fyrst grillveisla fyrir starfsmenn DAB voða gaman. Daginn eftir var afmæli hjá Kristleifi Heiðari og veisla hjá Guðnýju frænku svo daginn þar á eftir leikhúsferð með Varmalandsgenginu, sáum Brák og skemmtum okkur mjög vel. Svo er ekkert á dagskrá næstu mánuðina.

Heilsuleysi fjölskyldunnar heldur áfram,ég er búin að vera veik alla síðustu viku, fór til læknis á föstudag og fékk pensillin og Trausti Leifur fékk líka skammt í 10 daga. Núna liggja þau öll heima með hita enn. Þetta er víst enn einn vorboðinn.

Jæja hætt að væla og vola í bili.

 


Heilsuleysi fjölskyldunnar.

Jæja þá erum við búin að afgreiða flensuna þetta árið og vonandi það næsta líka. Trausti Leifur byrjaði mánudaginn 31. maí svo bættust hin Ármann og Inger við á fimmtudag 3. apríl. Síðan við gömlu greyin um helgina síðustu. Þetta er leiðinda pest sem tekur langan tíma og á eftir er fólk þreklaust og slappt í nokkra daga.

Þetta hefur verið það eina sem hefur verið í gangi hjá okkur undanfarið svo það er lítið að frétta. Já reyndar það er byrjaður sauðburður á Hamraendum, nokkrir gemlingar bornir alveg óvart.

Bestu kveðjur úr Brennunni


Eftir páska kemur vor.....

Þannig er það ekki núna að  þessu sinni. Páskarnir óvenju snemma núna svo það er enn mánuður í sumardaginn fyrsta sem er stundum í vikunni eftir páska. Þetta er nú svona núna.

Ég fór um daginn í fjárhúsin hjá Trausta sem er nú ekkert sérstaklega merkilegt út af fyrir sig en þar var maður að ég held breskur að taka af. Hann var ótrúlegur tók af 30-40 kindum án þess að rétta úr sér. 40 stk. á klst. með smá pásu en hann þurfti ekki að hafa fyrir að ná þeim eða leggja það sem tekur nú sennilega mest á.

Ármann Bjarni lenti í smá óhappi á þriðjudaginn, hann var í skógarferð í leikskólanum og fékk grein í andlitið og úr því varð allgott glóðarauga sem er að taka á sig alla regnbogans liti. Hann er alveg ótrúlega seinheppinn greyið, þrisvar er hann búinn að missa nögl af fingri svo hefur hann dottið niður úr koju og fékk þá væna kúlu og smá heilahristing. En svona er þetta og sem betur fer ekkert alvarlegt ennþá.

Trausti Leifur vaknaði í morgun með mikla speki, hann hafði farið að sofa í björtu og vaknaði í björtu svo það kom aldrei nein nótt.

Inger Elísabet er alltaf jafn brött, hún er að taka í gagnið fullt af fötum sem henni voru gefin svo hún velur ný föt á hverjum dagi núna og finnst það ekki leiðinlegt. Pjattgenið sem við systur fengum eitthvað minna af er greinilega í henni.

Byggingarframkvæmdir eru ekki hafnar en ég er að dunda við að hanna eldhús og er bara að verða nokkuð sátt við skipulagið þá er bara útliðið eftir, Eyjólfur er búinn að leggja blessun sína yfir hugmyndirnar.

Bless í bili og góða helgi. 

PS. smá sauðfjárkveðskapur með.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Gleðilega páska

Jæja þá eru að koma páskar, það er mis mikið um frí hjá fólki, þeir sem eru í mörgum vinnum eru t. d. bara í frí annan í páskum(ég sjálf). Ég varð svolítið pirruð þegar ég fann það út að ég væri að vinna páskahelgina því ég vann líka helgina milli jóla og nýárs, en það þýðir ekkert að vera að væla ég réð mig í vaktavinnu og ég verð bara að taka því sem að höndum ber þar sem og annarstaðar.

Ég fór með fjölskylduna á sýningu á Þið munið hann Jörund í Logalandi í gærdag. Flott sýning og mjög lifandi. Inger dóttir mín rúmlega 2 ára var ekki alveg á því að sitja kyrr og vildi helst taka þátt í gleðinni á sviðinu, foreldrarnir voru í fullu starfi við að reyna að halda henni á áhorfendasvæðinu alla sýninguna. Þegar svo var komið út í bíl hljómaði Arí dúarídúradei hátt og snjallt úr aftursætinu, þannig að eitthvað hefur síast inn af sýningunni. Kannski er litla prinsessan bara upprennandi leikkona eins og fleiri ættingjar, allavega er hún prímadonna. Bræðurnir voru mun settlegri þó þeir hafi aðeins smitast af veseni prinsessunnar.

Bestu kveðjur úr Brennunni.


Mennigin á landsbyggðinni

Það er ekki laust við að það sé menning hér á landsbyggðinni. Ég fór á þriðjudagskvöldið á sýningu Tónlistarskólans á Sígaunabaróninum og skemmti mér mjög vel bæði er þetta skemmtilegt verk og svo er svolítið absúrd hvað leikarar og söngvarar eru ekki á þeim aldri sem er ætlast til í verkinu, ungi útlaginn er t.d. gráhærður maður á sjötugsaldri en það er eiginlega bara svolítið fyndið. Íris systir var þarna líka með eldri dætur sínar tvær. Gaman að þessu og hvað fólk er ótrúlega duglegt að standa í þessu þarna er fólk sem er að keyra 60 km. hvora leið á æfingar og sýningar og á það ekki annað en mikið hrós skilið.

Annars er ekki mikið að gerast eins og er ég er í vikulegu sambandi við SG-Hús á Selfossi til að leggja lokahönd á teikningarnar af húsinu sem við stefnum á að rísi í sumar og draumurinn er að geta flutt inn í september. Það gengur bara vel við vorum reyndar að stækka bílskúrinn aðeins en svo eru ekki fleiri breytingar fyrirhugaðar.

Svo er árshátíð í Varmalandsskóla 6. mars og frumsýning á Jörundi í Logalandi 7. mars og góugleði 8. mars svo það er nóg framundan í félagslífinu.

Takk fyrir innlitið Auður


Enn af ófærð

Jæja, það eru enn fréttir af ófærð og nú vegna vatnavaxta.ShockingÞjóðvegur nr. 1 fór í sundur við Svignaskarð á sunnudagskvöld sem betur fer vað ekki slys. Við þetta lengdist verulega vegalengdin í Borgarnes fyrir mig, ég átti að mæta á skyndihjálparnámskeið á Dvaló mán. og þri. kvöld og vinna morgunvakt þri. Ég er að verða mjög latur ökumaður fyrir utan hvað það er orðið dýrt að keyra að ég fór niður eftir á mán. kvöld og kom aftur á þri kvöld. Það er von að húsbóndinn segi að ég sé aldrei heima.Whistling

Það er ekki laust við að 110% vinna sé farin að taka af manni svolítinn toll, ég nenni engu fyrir utan vinnu og að reyna að halda heimilinu í einhverju horfi. Ég hef mig varla í að fara að sjá pabba í sígaunabaróninum í Borgarnesi þó svo að allir segi að hann sé mjög góður, en nú verð ég að drífa mig um helgina ef ekki er orðið uppselt.Sideways

Bless í bili.


Ófærðarþreyta

Það er ekki laust við að mér hafi hálf brugðið við í morgun þegar ég fór til vinnu. Í fyrsta skipti í mjög marga daga hafði snjórinn verið kyrr á sama stað og þegar ég fór að sofa svo ég þurfti ekki að láta moka mig út að láta vaða í stóra skafla upp á von og óvon. Þetta er skrítin tilfinning en bara nokkuð góð. Ég er þegar búin að ná að festa mig mjög kirfilega x3 og x2 þurft að mæta seint til vinnu vegna ófæðar. En vonandi er þetta allt að lagst. Eyjólfur spáir reyndar vetri í a.m.k. 6 vikur til viðbótar.

Veðrið hefur sett undirbúning fyrir húsbyggingu í pásu núna það er lítið hægt að gera í vegalögn og jarðvinnu í svona tíð fyrir utan að vélarnar eru í fullu starfi í sjómokstri. En ef húsbóndinn hefur rétt fyrir sér fer þetta allt að lagast upp úr páskahretinu.

Af okkur Brennubúum er annars það að frétta að við erum öll við þokkalega heilsu og bara nokkuð hress.

Þar til næst bless í bili. 


Kuldi, þorrablót og ófærð.

Jæja enn á ný kominn mánudagur. Helgin var viðburðarrík, á föstudaginn fórum við Ármann Bjarni til Rvk. til augnlæknis sem gekk bara vel og hann þarf ekki gleraugu enn og sleppur jafnvel við þau. Þegar við komum heim klukkan að ganga 23 um kvöldið var hitamælirinn í Brennunni í - 20,5 og það var heldur kalt að fara úr bílnum og hlaupa inn.

Laugardagur Borgarnesferð þegar tókst að koma díseltrukknum í gang í frostinu og svo um kvöldið þorrablót í Þinghamri. Það var bara hið ágætasta blót fyrir utan eitt atriði og það var hörmungarhljómsveitin Hersveitin sem var í mjög breytilegu tempói svo maður vissi aldrei hvort maður átti að stíga næsta skerf hægt eða hraðar ekki hratt það var ekki til. Gólfið, nýja fína parketið var svo sleipt að það var mjög mikil kúnst að halda jafnvægi. Svo lentum við Eyjólfur í næstu þorrablótsnefnd og það var stöðugur straumur fólks til mín um að ráða nú aðra hljómsveit næsta ár. Heimferðin gekk vel að Hamraendum en ferðin niður í Brennu endaði fljótlega í skafli svið gistum hjá Trausta eins og svo margir aðrir.

Sunnudagurinn var frekar syfjaður en húsbóndinn var með höfðvekjapest svo það kom í hlut húsmóðurinnar að draga bílinn úr skaflinum og taka við börnunum af barnapíunni.

Það er sem sag ekki laust við að það sé enn einhver drungi í höfðinu á mér.

Auður


Annað

Hrein og tær snilld:

www.ruv.is  vefútvarp, rás 1, 26. jan. Hundur í útvarssal

Allir að hlusta.


Það er alltaf sama blíðan

Jæja, nú er kominn mánudagur enn og aftur helgin liðin vinnuhelgi og alveg allt brjálað að gera bara eitthvað í loftinu.

Ég byrjaði á því að vera næstum klukkutíma á leið í vinnu á föstudaginn í blindbyl (vön að vera 20 mín.)Þegar ég var að renna inn í Borgarnes var hringt frá leikskólanum og hann lokaður vegna veðurs, Eyfi varð því að vera heima með krakkana því ég var farin í vinnu. Þegar ég var svo að fara heim eftir vinnu náði ég að festa mig og sat föst í hátt í klukkutíma. Þegar ég svo loks komst heim til mín voru að verða 12 tímar frá því ég fór af stað í vinnu og komið alveg mikið meira en nóg af svo góðu.Laugardagurinn byrjaði svo með brasi bakvaktarkonan um helgina veik svo ég varð að bjarga málunum og taka vaktina og þá gat ég ekki verið að fara upp í sveit svo ég fékk inni í Borgarnesi. Sunnudagurinn var mjög erilsamur og svo tilkynntu sig 3 af 5 á kvöldvaktina veðurtepptar það varð að bjarga því og mikið var svo gott að koma heim í steikt læri hjá bóndanum.

Ekki meira núna ein örþreytt.


Næsta síða »

Höfundur

Auður Margrét
Auður Margrét

Þriggja barna móðir í sveit.

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 17
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 17
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband